“Afsal þjóðargjaldmiðils þýðir afsal sjálfstæðrar efnahagsstefnu”
TIL þess að land eða svæði með sérstakan gjaldmiðil geti sameinast öðru gjaldmiðilssvæði þurfa ákveðin skilyrði að vera fyrir hendi:
Hreyfanlegt vinnuafl og ríkissjóður
Vinnuafl verður að vera hreyfanlegt og geta flust milli svæðanna auðveldlega í takt við atvinnuframboð. Eða, í öðru lagi, að launþegar (og þá fyrst og fremst verkalýðssamtök) geti samþykkt kauplækkanir þegar þjóðartekjur minnka. Eða, í þriðja lagi, verða löndin að hafa sameiginlegan sjóð sem flytur fjármagn greiðlega til þess lands innan svæðisins sem verður fyrir efnahagsþrengingum. Ekkert af þessum skilyrðum er uppfyllt hvað varðar Ísland og evrusvæðið. Hreyfanleiki vinnuafls takmarkast af fjarlægð, kostnaði og menningarmun milli Íslands og evrulanda. Kauplækkanir verða ekki samþykktar af stéttarfélögum á Íslandi. Evrópusambandið hefur ekki sambandsríkissjóð (eins og þjóðríki hafa ríkissjóði) sem veitir miklu fé til sinna aðildarlanda.
Sömu hagsveiflur
Fjórða og veigamesta skilyrðið, sem eitt og sér mundi duga til þess að tvö svæði geti notað sama gjaldmiðil, er að hagsveiflur svæðanna séu svipaðar. Ástæðan fyrir þessu er að hagsveiflur kalla á aðgerðir í peningamálum gjaldmiðilssvæðisins til að milda áhrif sveiflunnar. Þegar tekjur minnka þarf gengið að lækka svo dragi úr eyðslu gjaldmiðilssvæðisins út á við. Þegar tekjurnar hækka má gengið hækka, lífskjörin batna og hægt að fjárfesta til framtíðar eða draga úr verðbólgu. Þegar eyðsla fer úr hófi fram er hægt að minnka fjármagn í umferð. Þegar kreppa skellur á er hægt að auka fjármagn í umferð; lækka vexti og gefa út peninga til þess að auka viðskipti og atvinnu. Þessar aðgerðir getur hvert land innan sama gjaldmiðilssvæðis ekki framkvæmt fyrir sig heldur verður peningamálastjórnkerfi svæðisins að framkvæma þær. Það þýðir t.d. að einstakt land getur ekki blásið lífi í atvinnulífið af eigin rammleik ef það lendir í efnahagslægð heldur þarf að fá peninga lánaða frá sameiginlegum seðlabanka svæðisins (eða fá fé úr ríkissjóði ríkjasambandsins sem ekki er til í ESB) og steypa landinu þannig í skuld.
Peningastjórntækið lykillinn
Peningamálastjórnunin er mikilvægasta hagstjórntæki hvers gjaldmiðilssvæðis og gerir kleift að minnka slæm efnahagsáhrif sveiflna sem oft stafa af óviðráðanlegum breytingum á erlendum mörkuðum eða framleiðsluaðstæðum. Land sem afsalar sínum gjaldmiðli afsalar um leið hagstjórninni og sjálfstæðri efnahagsstefnu. Peningamálastefna ESB byggist á að halda verðbólgu í skefjum frekar en að efla atvinnuþróun. Stöðugleiki í verðmæti útflutnings, og þar með í gengi gjaldmiðils og verðlagi, er ekki hér á landi, hefur ekki verið og verður ekki í nánustu framtíð. Þannig stöðugleiki skapast með fjölbreytni og stærð efnahagslífsins. Sérstakur íslenskur gjaldmiðill hefur aftur á móti gert að verkum að hægt hefur verið að halda útflutningsatvinnuvegunum og þar með almannasjóðum gangandi þrátt fyrir sveiflurnar. Hefði Ísland þurft að nota erlenda mynt hefðu stórir hlutar atvinnulífsins lent í þurrð en erlendir bankar og stórfyrirtæki hirt hreyturnar.
Verðbólga ekki það versta
Margir halda að verðbólgan sé rót alls ills. Svo er ekki þó óðaverðbólga sé slæm. Enn aðrir halda að verðbólgan sé gjaldmiðlinum að kenna. Svo er ekki, þar er við hagsveiflurnar og hagstjórnina að sakast. Hafa verður í huga að verðbólga er fylgifiskur uppbyggingar en ekki hemill á hana. Verðbólga getur orðið yfir 20% á ári tímabundið án þess að hafa sérlega neikvæð áhrif á efnahagsþróunina. Það verður áfram meiri verðbólga hérlendis en á evrusvæðinu. Vanhugsuð barátta við hana getur gert mikinn skaða og hefur reyndar þegar gert hér, sbr. háa stýrivexti.
Sterkur gjaldmiðill tvíeggja
Upptaka gjaldmiðils stórríkja, eða festing verðgildis þjóðargjaldmiðilsins við hann, hefur gefist illa minni þjóðum með fábreyttari atvinnuhætti og allt aðrar hagsveiflur en stórríki. Argentína festi sinn gjaldmiðil við dollar og fór í þrot. Lettland festi sinn gjaldmiðil við evru og er þess vegna í miklum vandræðum núna í kreppunni. Ísland var aftur á móti með eigin gjaldmiðil þegar kreppan skall á. Það gerði að verkum að útflutningsatvinnuvegir lifa enn vegna þess að verðgildi krónunnar lækkaði (og fyrirtækin fá fleiri krónur til þess m.a. að borga kaupið) og þau geta áfram selt afurðirnar, þrátt fyrir verðfall og sölutregðu, án þess að tapa fé og fara í þrot. Þá fyrst er óyfirstíganleg vá fyrir dyrum ef þau fara í þrot.
Þjóðargjaldmiðill
Þátttaka Íslands í myntbandalagi gæti komið til greina í framtíðinni þegar myntbandalög þróast og þegar fjölbreytni atvinnuvega og hagsveiflurnar hér verða líkari því sem gerist í nálægum löndum. Upptaka evru á næstu árum mundi leiða til þess að Íslendingar misstu stjórn á eigin hagkerfi og atvinnuvegina úr höndum sér. Forsenda þess að Ísland verði áfram sjálfstætt og fullvalda er því að það hafi áfram sérstakan þjóðargjaldmiðil. Það þýðir líka að hér verður að vera betri peningamálastjórn en verið hefur síðustu 15 árin, byggð á langtímahagsmunum þjóðarheildarinnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30.4.2009. Byggir m.a. á skrifum Roberts Mundell og Ha-Joon Chang.