Nov. 9. 2020
Heimsenda- og hrakspámenn hafa í allar aldir náð eyrum manna og jafnvel haft mikið fé að launum. Ekki virðist vera nein breyting á því, þeir verða moldríkir í dag þó að ástand heimsins sé að mörgu leiti skárra en það hefur verið lengi og íbúar jarðarinnar hafi það að jafnaði betra nú en áður. Vísindamenn hafa tekið við miklu af spástarfinu en þeir hafa reynst misjafnir svo mjög að menn eru farnir að vantreysta vísindunum. Ástæðan er að margir vísindamenn þurfa að viðhalda hrakspám til þess að fá fé í rannsóknir sínar. Falsáróðurinn er tæknivæddari og gefur meiri gróða en áður og margir hafa viðurværi af honum. En þekking á helstu vám sem að mannkyni steðja er oft til staðar ef vandlega er gáð.
Ísaldir: Okkar hluti af jörðinni hefur verið byggilegur síðustu tíuþúsund árin. Og þar áður fyrir um hundrað og tíuþúsund árum og meira að segja þar áður, miklu lengra aftur í tímanna, þegar loftslag var hlýtt. Okkar dýrategund virðist hafa orðið til á síðustu ísöld, fyrir meir en hundraðþúsund árum. Þá var okkar skiki ekki byggilegur, þakinn ís sem náði langt suður á meginlönd Evrasíu og Vesturheims. Þess konar ísaldir koma á um hundrað og tíu þúsund ára fresti: Kalt í hundraðþúsund ár, hlýtt í tíuþúsund ár. Það hefur því lengi verið ljóst að okkar skiki verður ekki byggilegur til eilífðar. Hlýju tíuþúsund árin eru liðin en sem betur fer hefur stundum teygst úr hlýindunum.
Geimváin: Stór loftsteinn eða mikið af geimefni gæti eyðilagt jarðarvistina, hefur gert það áður, fyrir okkur og fleiri dýrategundum. Geimryk í vetrarbrautinni gæti dregið úr sólarhitanum ef sólkerfið okkar lendir inni í því, og stórísöld skolilið á. Sprenging í geimnum nálægt okkur gæti gert lífríkið ónýtt. Við gætum horfið inn í svarthol ef fer á versta veg. Geislastormar eða óvenjulegar hamfarir á sólinni gætu eyðilagt líf og auk þess rafkerfin og tölvurnar.
Mannfjöldinn: Helsta umhverfisvandamál jarðar er mikill fólksfjöldi og fjölgar stöðugt á stórum svæðum. Verst er ástandið orðið í heitum beltum jarðar, þar er víða orðið þröngbýlt og lífsgæði lítil. Fátækt og sjúkdómar landlægir víða. Vanhæf stjórnvöld ráða mörgum löndum. Skipuleg og með lögum byggð samfélög heyra til undantekninga í þróunarlöndunum. Og armæðan leiðir af sér að stöðugur þrýstingur er af fólki þaðan sem vill flytja til þróaðra landa í tempraðri beltum jarðarinnar. Vandamál sem því fylgja eru frumstæðir siðir, öfgakennd trúarbrögð og myndun bæjarhverfa með erfið vandamál, árekstra, glæpi og hryðjuverk.
Smit. Ein alvarlegasta afleiðing mannfjölgunarinnar er að illviðráðanlegir sjúkdómsfaraldrar koma oftar upp og eiga nú greiða leið um alla jörð. Faraldrar berast með fólki sem ferðast milli staða sem aldrei fyrr. Misjafnar matvörur og margs konar lífríkisskaðvaldar komast hnatthorna á milli. Með sendingum sem fara milli landa á miklum hraða. Ferðamennska og vöruflutningar langleiðir eru orðnir gríðarlega miklir. Flutningur á smitandi lífefni fer nú með flugi um alla jörð sem eykur dreifingu gerla og sýkla og spillir lífríki fjarlægra staða. Sýklalyfjaþolnir gerlar eru orðnir viðvarandi, líka í nágrannalöndum Íslands í Evrópu.
Landmengun. Mengun frá mönnum spillir umhverfinu á þéttbýlum stöðum. Vatn, loft og land mengað af mannavöldum, ræktarland spillt af ofnotkun. Mengunarefni frá þéttbýli, iðnaði og annarri starfsemi kemst í jarðveg, grunnvatn og yfirborðasvatn. Þessi mengun er staðbundin og því oft viðráðanleg. Mikil reykmengun liggur víða yfir stórum borgum af farartækjum, sérstaklega þar sem tvígengisvélar eru notaðar. Þessi mengun er staðbundin en getur breiðst yfir nágrannasvæði og komist í jörð og spillt gróðri. Þrávirku efnin í menguninni, þar á meðal plastagnir, breiðast út í ræktarlandið, menn og dýr.
Höfin. Höfin eyða sýklum og gerlum yfirleitt hratt. En þrávik efni lenda í höfunum og eru lengi að eyðast og komast í lífríki sjávar. Hættulegum mengunarefnum er enn hent í sjóinn víða. Aukið þéttbýli sendir tröllvaxið magn af skólpi í sjóinn. Og vaxandi skipaumferð sendir mikil óhreinindi í sjóinn. Plast er vaxandi vandamál og er orðið svo algengt að sjávardýr fá heilu plasthlutina í innyflin og veikjast. Geislavirk efni úr kjarnorkuframleiðslu geta borist í sjóinn og með hafstraumum á fiskimið á norðurslóðum. Varnir gegn mengun hafanna er eitt umfangsmesta umhverfisverndarmál framtíðarinnar og stórhagsmunamál Íslands.
Andrúmsloftið. Lofthjúpurinn hefur í sér afkastamikla sjálfhreinsun. Ryk og flest eiturefni hvarfast í skaðlítil efni og rignir niður og dreifast og valda ekki miklum skaða nema staðbundið þar sem útblástur er mikill.Ýmsar lofttegundir, m.a. þrávirkar, eyðast með geislum sólar þegar þær koma upp í lofthjúpinn og verða að skaðlitlum efnum. Þær voru taldar eyða ósonlaginu en ekki er vitað um umfangið. Koltvísýringur er eina næring lífsins sem gefur lífefni. Hann kemur úr lífríki og sjó og lítill hluti frá brennslu. Magnið af honum í andrúmsloftinu getur ekki orið of mikið frá brennslu manna vegna takmarkaðs magns af jarðefnaeldsneyti í jarðskorpunni. En gróðurvöxtur eykst sem getur haft jafnandi áhrif á loftslag og góð áhrif á efnahag. Haugloft (metan) kemur líka út í lofthjúpinn úr margs konar uppsprettum og verður þar að koltvísýring. „Gróðurhúsaáhrifin“ frá þessum lofttegundum eru hverfandi lítil, það er vatnsgufa lofthjúpsins sem gefur þau. Hlýnun loftslags af mannavöldum hefur ekki mælst með óyggjandi hætti ennþá en ef hún verður einhver verður hún lítil og ekki til skaða.
Styrjaldaváin Stórstyrjöld hernaðarvelda gæti fellt talsverðan hluta mannkyns. Afleiðingar í geislun, ryki, hungri og sjúkdómmum mundi líka fella margt fólk. Erfitt er að hafa hemil á stríðsæsingum og vígbúnaðarkapphlaupi, nú er í gangi mikill vígbúnaður víða um jörð. Sameinuðu þjóðirnar hafa reynst máttlitlar í að koma í veg fyrir stríð þó að það hafi átt að vera helsta hlutverk þeirra samtaka. En þó styrjaldir verði miklar er ekki líklegt að þær eyði mannkyninu. Eihverjir munu lifa af og getað ræktað akrana og garðana á ný.