Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB.

Minnisblað um verkefnaskrá ACER 2016

Tilefni þessa minnisblaðs er, að ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem er orkustofnun Evrópusambandsins (ESB) og hóf starfsemi í Ljubljana í Slóveníu árið 2011, hefur sett sæstreng á milli Íslands og Bretlands á verkefnaskrá sína undir nafninu Ice Link. Aðstandendur verkefnisins eru sagðir Landvirkjun, Landsnet og National Grid Interconnector Holdings Ltd. Hafi téð íslenzk fyrirtæki tilkynnt opinberlega um þetta, hefur það farið framhjá undirrituðum. Er full ástæða til að krefja Landsvirkjun, sem ekki á að skipta sér af orkuflutningsmálum og er að fullu í eigu ríkissjóðs, um útskýringar á, hvað það merki, að Ice Link sé komið á framkvæmdaskrá ACER og orkuvinnslufyrirtækið Landsvirkjun sé þar skráður aðstandandi.

Á skránni er tilgreint, að stefnt sé að rekstri sæstrengsins f.o.m. 2027. Það gæti þýtt, að ACER hafi þegar mótað sér stefnu um að tengja raforkukerfi Íslands við raforkukerfi ESB, þótt Alþingi hafi enn ekki staðfest samþykki sameiginlegu EES-nefndar EFTA og ESB frá maí 2017 á því. Með því að fella Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn, mun Alþingi færa úrslitavald yfir raforkuflutningsmálum á Íslandi, og til og frá landinu, úr höndum innlendra stjórnvalda til ACER.

Viðmið ACER um það, hvort tengja á saman tvö svæði eða lönd eða efla samtengingu, sem fyrir er, er raforkuverðmunur á milli svæðanna. Ef verðmunur nemur meiru en 2,0 EUR/MWh, samsvarandi 0,25 ISK/kWh, þá ráðleggur sérfræðingahópur innan ACER framkvæmd, og ef meirihluti fulltrúa ESB-ríkjanna í ACER styður hana, fá útibú ACER í viðkomandi löndum fyrirmæli um að framfylgja ákvörðuninni. Þessi útibú skulu vera óháð innlendum stjórnvöldum og hagsmunaaðilum. Ákvarðanir þeirra munu aðeins verða kæranlegar til úrskurðarnefndar innan vébanda ACER/ESB. ESB hefur aðeins veitt EFTA-löndum EES-samstarfsins áheyrnarrétt á fundum ACER, en hafnað atkvæðisrétti þeim til handa.

Raforkusamtengingar á milli landa eru yfirleitt í eigu og reknar af raforkuflutningsfyrirtækjum viðkomandi landa (einokunarfyrirkomulag samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB). Rísi ágreiningur á milli fyrirtækjanna um kostnaðarskiptinguna, sker ACER úr deilumálinu. Fjárhagsskuldbindingar Landsnets munu þá fyrirsjáanlega vaxa, sem gæti dregið úr getu fyrirtækisins til að þjóna innlendum markaði. Hagnað af orkuflutningum um mannvirki á milli landa má ekki nota til lækkunar flutningsgjalds innanlands samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB , heldur skal beina honum til frekari fjárfestinga í millilandatengingum, þar til orkuverðsmunurinn fer undir leyfilegt hámark. Aðeins, þegar frekari styrkinga millilandatenginga er ekki lengur þörf, má beina hluta hagnaðar af millilandatengingum til lækkunar flutningsgjalds innanlands.

Kostnaður Landsnets við styrkingu raforkukerfisins fyrir flutninga að og frá Ice Link mun hins vegar allur lenda á raforkunotendum á Íslandi og mun óhjákvæmilega leiða til hækkunar hjá almennum notendum og líklega stóriðju. Með hliðsjón af kostnaðaráætlun norska Statnetts um flutningsmannvirki að fyrirhuguðum sæstrengjum frá Noregi til Bretlands og Þýzkalands, með svipaða flutningsgetu hvor og fyrirhugaður Ice Link, 1200 MW, mundi fjárfestingarþörf Landsnets vegna mannvirkja á landi vegna Ice Link nema miaISK 26 (gengi NOK/ISK=13,0), sem gæti að mati undirritaðs leitt til hækkunar flutningsgjalds til almennings um allt að 0,53 ISK/kWh eða 29 %, ef allur kostnaðaraukinn lendir á almenningi, en 17 %, ef stóriðjan mun bera 40 % af þessum kostnaði, svo að dæmi sé tekið um óvissa hlutdeild fyrirtækja með langtímaorkusamninga í kostnaði vegna sæstrengja til útlanda.

Hinn þáttur heildarraforkuverðsins, sem áreiðanlega mun hækka við þessa utanlandstengingu, er raforkuverðið frá virkjun og söluaðila. Ef miðað er við raforkuverð á Bretlandi 8,0 ISK/kWh í smásölu til almennings, sem er lægra verð en á meginlandi Evrópu, þá mun ACER ekki linna látunum fyrr en raforkuverð hérlendis hefur hækkað upp í 7,75 ISK/kWh eða um 1,85 ISK/kWh, sem jafngildir u.þ.b. 31 % hækkun. Er það svipuð verðhækkun orku frá virkjun og búizt er við í Noregi m.v. núverandi stöðu. Heildarhækkun raforkuverðs til almennings án skatta mun að lágmarki nema 2,2 ISK/kWh eða rúmlega 16 %, þegar lögð er saman hækkun á orkuverði frá virkjun og á flutningsgjaldi Landsnets með verulegri kostnaðarþátttöku stóriðju, en sleppt hugsanlegum hækkunum flutningsgjalds til almennings vegna þátttöku Landsnets í beinni fjárfestingu í Ice Link.

Þjóðhagsleg afleiðing þess að leiða ACER til valda á orkuflutningssviðinu á Íslandi er tvímælalaust neikvæð, því að hækkun raforkuverðs er verðbólguhvetjandi, og ráðstöfunartekjur almennings eftir raforkukaup munu minnka og samkeppnisstaða allra fyrirtækja mun rýrna. Sérstaklega mun staða iðnaðarfyrirtækja með langtímasamninga um raforkukaup verða tvísýn, þegar kemur að framlengingu orkukaupasamninga, því að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) mun rýna þá og bera saman við markaðsverð í ESB. Er þá óvíst, hvort tekið verður tillit til erfiðrar samkeppnisstöðu á Íslandi fyrir slík fyrirtæki, ný og gömul, af öðrum orsökum, t.d. fjarlægð frá hráefnisverksmiðjum og frá mörkuðum fyrir afurðirnar. Þannig getur lögleiðing umrædds Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi haft mikil neikvæð áhrif á atvinnustig og verðmætasköpun á Íslandi, sem hagnaður af raforkuútflutningi engan veginn getur vegið á móti.

Að lokum má benda á, að m.v. núgildandi Rammaáætlun um verndun og nýtingu orkulinda munu orkulindir í nýtingarflokki og að hluta í biðflokki ekki duga fyrir fullnaðar orkuskiptum á Íslandi, ef samhliða verður flutt út raforka um a.m.k. einn 1200 MW sæstreng, sem numið getur 10 TWh/ár, sem er meira en helmingur allrar núverandi raforkuvinnslu landsins. Það er algerlega undir hælinn lagt, hvort ACER muni taka nokkurt tillit til innlendra sjónarmiða af þessu tagi, og hætt er við hastarlegum hagsmunaárekstrum á milli íslenzkra stjórnvalda og útibús ACER á Íslandi, þegar hið síðarnefnda tekur að beita sér í íslenzkum raforkuflutningsmálum.

Að öllu þessu virtu verður að telja það vera óráð af Alþingismönnum að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB inn í EES-samninginn. Aftur á móti er full ástæða til að nýta „neyðarhemil“ EES-samningsins um höfnun gjörnings, sem þó sameiginlega EES-nefndin hefur samþykkt.

Garðabæ, 23. febrúar 2018

Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur

https://www.frjalstland.is/consolidated-report-on-the-progress-of-electricity-and-gas-projects-of-common-interest-for-the-year-2016-acer-eu/