Nýtt hlutverk ESA: Að halda á lofti hagsmunum EFTA-landanna í Orkusambandinu gagnvart ESB !
Noregur er orkuríkt land með mikla vinnslu á bæði endurnýjanlegri orku og orku úr jarðefnaeldsneyti, og raforkunotkun á mann er hvergi meiri en á Íslandi, og hún er hér öll úr endurnýjanlegum orkulindum. Ísland og Noregur gætu verið brautryðjendur í heiminum gagnvart þeim orku- og loftslagsviðfangsefnum, sem Evrópa og heimurinn allur stendur frammi fyrir. Þess í stað hafa ríkisstjórnir þessara tveggja Norðurlanda stuðlað að andlausri aðlögun að orku- og loftslagsstefnu ESB.
Fulltrúar ESB hafa lengi haft uppi stór orð um orkusambandið, sem ætlunin væri að þróa. Síðasta stóra verkefnið í því sambandi, hinn s.k. „Þriðji orkumarkaðslagabálkur“, var samþykktur í djúpri fjárhagskreppu árið 2009.
Bálkurinn fjallar um aukna orkunýtni, einangrun bygginga, endurnýjanlega orku og regluverk raforkumarkaðarins, viðbúnað gegn orkuskorti og afhendingaröryggi orku, raforkuviðskipti yfir landamæri og um, hvernig ESB ætlar að tengja saman orkustjórnvöld í ríkjunum í virka yfirþjóðlega stjórnun Orkusambands ESB (þ.e. ACER-Agency for the Cooperation of Energy Regulators). Alls er þar um að ræða yfir 1000 blaðsíður af nýju regluverki, og langmest af því er merkt „viðeigandi fyrir EES“. Þetta merkir, að ESB vill fá gjörðina inn í EES-samninginn. Það var loks samþykkt í Sameiginlegu EES-nefndinni 5. maí 2017, og innan árs þaðan í frá eiga þjóðþing EFTA-landanna í EES að hafa leitt þann mikla orkumarkaðslagabálk í lög hjá sér með þeim djúpstæðu stjórnarfarsbreytingum á sviði orkumála, sem sú lagasetning hefur í för með sér.
ESB myndar Orkusamband
Kjarninn í þessum orkumarkaðslagabálki er nýtt stjórnkerfi fyrir Orkusamband ESB. Frá 2021 eiga aðildarlöndin að senda inn árlegar orkuáætlanir um vinnslu, flutning og notkun, sem framkvæmdastjórn ESB á að rýna – samþykkja eða breyta.
Eitt af vandamálum Íslendinga og Norðmanna varðandi samvinnu (ESB útilokar aðild annarra en ESB ríkja í ACER) við Orkusambandið er, að þessar þjóðir hafa – eða ættu að hafa – allt annarra hagsmuna að gæta í orkumálum en stór ESB-ríki á borð við Þýzkaland, Frakkland og Pólland.
Breytilegar ríkisstjórnir hafa í áravís átt í samningaviðræðum við ESB um, hvernig taka ætti þennan orkureglubálk inn í EES-samninginn. Erfiðast hefur verið að ná samkomulagi um samband EFTA-ríkjanna við ACER, stofnunina, sem tengir saman stjórnvaldsstofnanir ríkjanna innan orkugeirans.
Mikið af starfsemi þessarar stofnunar snýst um tæknilega samvinnu, sem ekki er af yfirþjóðlegu tagi. Hins vegar er á vegum ACER í nokkrum mikilvægum málaflokkum hægt að taka bindandi ákvarðanir fyrir ríkin með einföldum meirihluta. Þar er m.a. um að ræða uppbyggingu innviða þvert á landamæri og það, sem sakleysislega er kallað „verkefni um sameiginlega hagsmuni“. Rafaflstengingar, loftlínur, jarðstrengir og sæstrengir, falla í þann hóp.
Ef þátttakendur í slíku sameiginlegu verkefni verða ekki ásáttir um skiptingu kostnaðar, getur ACER ákveðið, hversu mikið hver greiðir. Það getur t.d. þýtt, að af ákvörðun ACER leiði, að Noregur og Ísland verði að standa undir kostnaði af sæstrengjum til annarra landa. Slíkur kostnaður felur í sér stofnkostnað, rekstrarkostnað og viðgerðarkostnað og getur orðið gríðarlegur baggi fyrir Landsnet og Statnett, sem þá mun sjá stað í flutningsgjaldi á orkureikningi almennings og hugsanlega stóriðju, sem þegar er tiltölulega hátt bæði í Noregi og á Íslandi. Það er ekki vafa undirorpið, að fjárfestingar og rekstrarkostnaður á landi við flutningsmannvirki til að flytja raforkuna að landtökustað sæstrengs, lendir á viðkomandi flutningsfyrirtækjum, þ.e. Statnett og Landsneti í tilviki Noregs og Íslands. Þetta er tiltölulega hár kostnaður, þar sem flutningsgetan er hátt hlutfall af heildarvinnslugetu landsins, eða helmingur, eins og lítur út fyrir í Noregi og á Íslandi. Í stað þess að vera með lægsta raforkuverð í Evrópu gætu Noregur og Ísland lent í þeirri stöðu að verða með hæsta raforkuverð í Evrópu til almennra notenda, þegar fram líða tímar.
ESA mun samþykkja allar tillögur ACER
Íslandi og Noregi er boðið upp á sama fyrirkomulag og samþykkt var af þjóðþingum landanna um tenginguna við Fjármálaeftirlit ESB: ESA, eftirlitsstofnun EFTA með framkvæmd EES-samningsins, er eftirlátið að taka ákvarðanir, sem varða Noreg, Ísland og Liechtenstein. Það er niðurnjörvað, að ESA á að taka ákvörðun samkvæmt tillögu ACER.
Ríkisstjórn Noregs (og væntanlega Íslands) heldur því fram, að þetta feli ekki í sér neitt valdaframsal frá Noregi (og Íslandi) til ESB. Hún treystir á samkomulag um, að „ACER og ESA skulu eiga í nánu samstarfi við undirbúning ákvarðana, yfirlýsinga og hvatninga“. Þetta er ótrúverðugt í ljósi þess, að 27 ríki standa að baki ACER og að ESA hefur aldrei gegnt neinu öðru hlutverki en að fylgjast með framkvæmd regluverks ESB í EFTA-löndum EES.
Ríkisstjórnir EFTA-landanna í EES vinna að því, að þjóðþingin samþykki þetta fyrirkomulag, sem framkvæmdastjórn ESB fyrirskrifar. Það er engin ástæða til þess. Algert ójafnræði hefur ríkt á milli EFTA og ESB við smíði á þessu regluverki, og þess vegna hefur tveggja súlna samstarf EES-samningsins verið virt að vettugi. Lágmarkskrafa er, að allt, sem innifelur valdaframsal, sé borið saman við fullveldisákvæði stjórnarskránna. Umfjöllun Stórþingsins þarf að vera samkvæmt grein nr 115 í Stjórnarskrá Noregs, sem áskilur samþykki ¾ hluta viðstaddra þingmanna að lágmarki.
Fullveldisframsal felur ekki í sér „lítið inngrip“
Á Stórþinginu var löngum tíðkað framsal fullveldis með einföldum meirihluta samkvæmt grein nr 26.2 í stjórnarskrá undir því fororði, að framsalið fæli í sér „lítið inngrip“ í þjóðlífið. Þetta er vart boðleg framganga, og ber að binda enda á.
Fullveldisframsal á jafnvíðtæku sviði og orkusviði er a.m.k. varla hægt að líta á sem „lítið inngrip“ í þjóðlífið. Fyrirætlun framkvæmdastjórnar ESB um hlutverk ACER í framtíðinni felur í sér “inngrip“, sem um munar.
Með þetta í huga ætti að velja allt aðra aðferðarfræði fyrir Ísland og Noreg en þá, sem felst í „Þriðja orkumarkaðslagabálkinum“. Það ber að fara í samningaviðræður um undantekningar fyrir EFTA-löndin um yfirþjóðleg ákvæði í orkubálkinum, sem binda hendur ESB-ríkjanna. Það er t.d. óboðlegt fyrir EFTA-ríkin, að stofnun, óháð lýðræðislega kjörnum yfirvöldum ríkjanna, taki við fyrirmælum frá ACER (með milligöngu ESA), þar sem Ísland og Noregur ekki eiga fulltrúa með atkvæðisrétti. Slíkar samningaviðræður væru viðurkenning á þeim grundvallarmuni, sem á að vera á yfirþjóðlegu samstarfi ESB-ríkjanna og landasamvinnu í EES. Ef ESB neitar að verða við eðlilegum fullveldiskröfum EFTA-ríkjanna, ber að vísa málinu beint til norsku og íslenzku þjóðarinnar, hvort löndin eigi áfram samleið með ESB-ríkjunum í EES.
Greinin er reist á grein í Árbók 2018 norsku andófssamtakanna,„Nei við ESB,
„Hva gjör vi med ACER ?“.
Garðabæ, 01.02.2018 . Uppf.15.2.2018. Bjarni Jónsson, rafm. verkfr.