Innlent | mbl | 12.2.2018 | 20:00 | Uppfært 21:17
Vegið að grunnstoðum EES-samningsins
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon
„Mér finnst orðið tímabært að við tökum það til alvarlegrar skoðunar á þinginu hver staða EFTA-ríkjanna sé á grundvelli EES-samningsins þegar slíkar kröfur eru gerðar af hálfu Evrópusambandsins. Mjög fljótt á litið sýnist mér að það séu í raun og veru ekki kröfur sem samrýmast grunnhugsun EES-samstarfsins.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í umræðum á Alþingi á þriðjudaginn í síðustu viku þar sem rætt var stjórnarfrumvarp til laga um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár sem byggir á löggjöf frá Evrópusambandinu sem Íslandi ber að taka upp á grundvelli aðildar landsins að EES-samningnum. Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, kvað sér hljóðs á Alþingi daginn eftir í umræðum um störf þingsins og sagði með skírskotun til ræðu Bjarna að honum sýndist Bjarni vera að undirbúa jarðveginn fyrir það að gera EES-samstarfið tortryggilegt og sagðist vara eindregið við því.
Ísland sæti boðvaldi stofnana ESB
Bjarni sagði Íslendinga standa ítrekað frammi fyrir því „í hverju málinu á eftir öðru, það er nánast orðinn árlegur viðburður, að Evrópusambandið krefst þess þegar við tökum upp Evrópugerðir, tilskipanir eða reglugerðir, að við Íslendingar fellum okkur við að sæta boðvaldi, úrslitavaldi, sektarákvörðunum eða með öðrum hætti skipunum frá alþjóðastofnunum sem Evrópusambandið hefur komið sér upp en við eigum enga aðild að.“
Bjarni sagði þetta alvarlegt mál þar sem að þar væri í raun og veru vegið að grunnstoðum EES-samningsins, hinu svokallaða tveggja stoða kerfi, en kerfið felur í sér að EFTA/EES-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein heyra undir EFTA-dómstólinn og Eftirlitsstofnun EFTA við framkvæmd samningsins en ekki stofnanir Evrópusambandsins.
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert
„Það eitt og sér ætti að duga til að þvinga í sérhverju tilviki fram tveggja stoða lausn. Okkur hefur tekist það í sumum málum. Það á til dæmis við um regluverk sem snertir fjármálamarkaðinn. Þar höfum við smíðað sérlausnir eftir mjög langt samningaferli við Evrópusambandið. En síðan erum við með önnur dæmi þar sem mun meiri tregða mætir okkur. Ekki hjálpar það þegar samstarfsþjóðir okkar EFTA-megin í samstarfinu hafa ákveðið að láta undan áður en við höfum komist að niðurstöðu. Þá stöndum við ein eftir með kröfuna um að byggt verði á tveggja stoða kerfi.“
Aukin tregða Evrópusambandsmegin
Fjármálaráðherra sagði málið ekki síður alvarlegt vegna þess að mikilvægt væri að EFTA-stoðirnar sem EES-samstarfið hvíldi á væru sterkar, væru ekki skildar eftir út undan og látið eins og þær væru aukamál. Á sama tíma væri Evrópusambandið að koma á fót nýjum stofnunum eða fela eldri stofnunum aukin verkefni og beitti því sjónarmiði gagnvart EFTA-ríkjunum að engin ástæða væri til að láta EFTA-stoðirnar glíma við sömu verkefni. Þetta væri eitt og sér gríðarlega alvarlegt og bættist við þann vanda sem íslensk stjórnvöld glímdu nú þegar við sem væri hversu fá ríki stæðu að EFTA-stofnununum EFTA-megin.
„Ég verð var við það í hverju málinu á eftir öðru að ákveðin þróun á sér stað sem við verðum að bregðast við. Mér finnst utanríkisþjónustan og einstök fagráðuneyti hafa staðið sig ágætlega í því að spyrna við fótum og fara fram á sérstakar lausnir en við sjáum aukna tregðu Evrópusambandsmegin og kannski vaxandi eftir Brexit [útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu], þar sem allir verða að falla í sama mótið og engar undanþágur eru samþykktar. Menn fara einfaldlega aftast í röðina ef þeir fara fram á sérlausnir.“