Hrunið fimmtán ára

Með EES-samningnum færðust íslenskar fjármálastofnanir undir regluverk Evrópusambandsins og fengu m.a. að stofna til bankastarfsemi í ESB-löndum og fengu heimildir til þess að veita lán til eigin stjórnenda og eigenda. Þetta kom af stað útþenslu og útrás til ESB-landa sem íslensk stjórnvöld gátu ekki stjórnað en horfðu á óverðurskýin hrannast upp. Klukkan 10 f.h. þann 8. október, 2008, varð Ísland svo fyrir óvæntri og fjandsamlegri efnahagsárás. Ríkisstjórn Bretlands, EES- og NATO-bandamanna Íslands, fyrirskipaði kyrrsetningu eigna íslensku bankanna, þar með talið Seðlabanka Íslands. Einnig voru kyrrsettar aðrar fjáreigur íslenska ríkisins s.s. Fjármálaeftirlitsins og fleiri íslenskra aðila í Bretlandi sem náðist til. Þetta var gert með vísun í hryðjuverkalög. Íslensku bankarnir voru settir í þrot.  

The Landsbanki Freezing Order: http://www.legislation.gov.uk/uksi/2008/2668/made

ESB-lönd, þ.m.t. Norðurlönd, fylgdu í kjölfar Breta og lokuðu á íslensk fjármálafyrirtæki. Ráðherrar Bretlands komu fram í BBC og sögðu að Ísland ætlaði ekki að standa við skuldbindingar sínar og væri í raun komið í vanskil. Rússar og Færeyingar buðu strax fram aðstoð. Greiðslur milli landa stöðvuðust en fljótlega tókst Seðlabankanum að koma þeim í lag með aðstoð banka í Bandaríkjunum, JP Morgan, og forða landinu frá öngþveiti.

Fjármálakreppan sem skall á af krafti haustið 2008 hafði verið að grafa um sig í nærri þrjú ár. Lánamarkaðir lokuðust bönkum og stjórnvöld og seðlabankar þurftu að grípa inn í og bjarga þeim.

Íslensku bankarnir voru starfræktir samkvæmt regluverki EES þegar þeir hrundu. Þeir fengu með EES starfsleyfi í ESB-löndum og fóru í mikla útrás, m.a. í Bretlandi. Þeir fengu rýmkaðar starfsheimildir og tóku að vaxa mjög hratt.

Orsakir Hrunsins. „- skýringar á falli Glitnis, Kaupþings og Landsbankans er fyrst og fremst að finna í örum vexti þeirra og þar með stærð þegar þeir féllu í október 2008-“ (Rannsóknarnefnd Alþingis, 2010, 1. bindi, 2. kafli, bls. 31). Ein ástæða vaxtarins var að með EES fengu bankarnir aðgang að fjármagnsmörkuðum í ESB. Aðrar orsakir vaxtarins og útrásarinnar var að finna í regluverki EES sem tekið var upp hérlendis. Miklar breytingarnar voru með því gerðar frá eldra íslenska regluverkinu og heimildir bankanna til vaxtar og athafna stórauknar. Breytingarnar fólust i „- auknum heimildum banknna

-til að fjárfesta í ótengdum atvinnurekstri

-til lánafyrirgreiðlsu til stjórnenda

-til að fjárfesta í fasteignum og fasteignafélögum

-til að veita lán til kaupa á eigin hlutum

-og minni kröfum til rekstrarfyrirkomulags verðbréfafyrirtækja

-til að reka vátryggingafélög

-til að fara með eignarhlut í öðrum lánastofnunum-“ (Rannsóknarnefnd Alþingis, 2010, 5. bindi, kafli 15.3, bls 12).

Heimildir stjórnvalda á Íslandi til að stjórna bönkunum takmörkuðust af EES-regluverkinu. Með afnámi gjaldeyrisstjórnunar og með „frjálsu flæði fjármagns“ samkvæmt EES opnuðust gáttir fyrir flutning mikils erlends fjár til landsins. Bankarnir versluðu ótæpilega með erlendan gjaldeyri eins og hann væri íslenskur lögeyrir. Í aðdraganda hrunsins horfðu íslensk stjórnvöld, með hendur bundnar af EES-regluverkinu, á bankana ofvaxa og verða of stóra til að íslensk stjórvöld gætu aðstoðað þá eða orðið þeim til þrautavara. Stjórnvöld Íslands gerðu ekkert og treystu sér ekki til að breyta eða afnema EES-regluverkið fyrr en neyðarlög voru sett.

Neyðarlög endurheimtu glatað stjórnvald

Kreppan versnaði stöðugt. Þegar bankarnir voru komnir í mikla hættu rann loks upp fyrir íslenskum stjórnvöldum haustið 2008 að enga aðstoð var að fá og ekkert var hægt að gera innan ramma EES-regluverksins. Neyðarlög voru þá sett 6. október sem lögfestu víðtækar heimildir stjórnvalda til að grípa inn í bankareksturinn. Lögin tóku EES-samninginn úr sambandi hvað mikilvæg mál fjármálamarkaðarins og peningamál varðar og var stjónvald yfir þeim tekið aftur heim tíl Íslands. Ákvæði EES um frjálst flæði fjármagns, sem reynst hafði mjög skaðlegt, var gert óvirkt en reglugerðir um gjaldeyrisstjórnun, „fjármálahöft“, voru settar í kjölfar Neyðarlaganna.

Neyðarlögin voru sjálfstæðisyfirlýsing Íslands gegn kúgun fjármálakerfis Evrópusambandsins sem tekið var eftir víða um heim og er litlum þjóðum enn fyrirmynd.

Bretastjórn og Hollandsstjórn aðallega reyndu síðan að koma ábyrgðinni á innistæðum í föllnu bönkunum þarlendis á ríkissjóð Íslands. Það reyndist byggt á röngum skilningi regluverksins en Ísland sat undir hótunum Breta og ESB í nokkur ár. Í kjölfar undirskriftasafnana, sem frjáls félagassamtök stóðu fyrir, tók forseti Íslands Icesave-málin frá Alþingi og ríkisstjórn í sínar hendur og fól íslensku þjóðinni tvisvar að úrskurða. Hún hafnaði kröfunum í tveim þjóðaratkvæðagreiðslum.

Upphleðsla fjáreigna erlendra aðila, sem sátu fastar í landinu eftir hrunð, tókst ríkistjórninni sem sat 2013-2016 að leysa út að miklu leyti. Þar með var síðustu efnahagshættunni frá hruninu bægt frá landinu.

Meginástæða þess að fjármálakreppan 2008 bitnaði svo illa á Íslandi, og að bankarnir hrundu, var að Ísland missti með EES-samningnum stjórnvald yfir bönkunum og gjaldeyrisviðskiptunum.

This entry was posted in Bankar, EES. Bookmark the permalink.