Kolefnissporið er ný grýla

“Þeir sem skálda grýlusögurnar reyna að gera einfalt mál flókið. Kolefnisspor manna spillir ekki loftslaginu.”

Kjarnorkusprengjan og Rússarnir eru ekki lengur einu grýlurnar, það er komin ný: Kolefnissporið. Allir eiga nú að minnka kolefnissporið til að koma í veg fyrir hamfarahlýnun. Risavaxnar ráðstefnur eru haldnar. Sameinuðu þjóðirnar senda frá sér grýlusögur um mestu vá mannkyns. Vesturlönd mörg hafa þegar sett lög og reglugerðir á hana.

Baráttan við nýju grýluna er þegar farin að kosta geigvænlegar fjárhæðir og umhverfisspjöll. „Orkuskipti“ þýða að léleg orkumannvirki eru reist og rekin með almannafé, hagkvæmum orkuverum er lokað. Varasöm farartæki eru niðurgreidd með almannafé. Rafmagn notað þar sem óhagstætt er að nota það. Fjárfest í „grænum“ verkefnum sem almannasjóðir eru látnir borga tapið af beint og óbeint. Mýrarvilpur endurheimtar og kýrnar skammaðar fyrir að leysa vind. Lélegt eldsneyti framleitt úr lélegum hráefnum (koltvísýringi og vatni), kostnaður (taprekstur) greiddur með „kreditum“, peningum sem koma frá arðgefandi fyrirtækjum. Feluleikur til að leyna því að heimili og fyrirtæki standa undir óheyrilegri sóun orkuskiptanna.

Orkukreppa og efnahagshrörnun, afleiðingarnar, eru komnar í ljós, orkukreppa sem leiðir af sér ekki bara of hátt orkuverð heldur líka skort. Ástandið fer dagversnandi í Evrópusambandinu og víðar þar sem grýlan leikur lausum hala. Óforsjálnin og óðagotið er mikið, forsjálir menn rífa ekki húsið sitt áður en nýja húsið er tilbúið, hvað þá orkukerfið. Fyrirtæki og fjölskyldur flýja vegna hás kostnaðar og óöryggis. Alvarleg efnahagshrörnun er skollin á.

Grýlan sjálf, kolefnissporið, koltvísýringurinn sem mannkyn sendir út í andrúmsloftið, er samanlagt ríflega 30 milljarðar tonna á ári. Jörðin sjálf sendir frá sér um 800 milljarða tonna á ári og tekur upp svipað magn. Upptaka jarðar fer vaxandi og gróðurvöxtur eykst þegar meira er í loftinu sem stöðvar aukninguna með tímanum. Nú eru 3.000 milljarðar tonna, ríflega 0,04% af lofthjúpnum, koltvísýringur. Aðrar gróðurhúsalofttegundir, s.s. haugloft (metan), eru í litlu magni og hafa hverfandi áhrif þótt margir haldi fram hinu gagnstæða. Ekki er vitað hvernig ástandið væri ef engir menn væru á jörðinni. En vitað er að þegar jurtagróðurinn var einna öflugastur, löngu fyrir daga mannsins, var 15-20 sinnum meira af koltvísýringi í lofthjúpnum en nú er. Þótt Kínverjar og Indverjar brenndu öllum sínum kolalögum (250 milljörðum tonna) mundi það ekki valda neitt nálægt þeim koltvísýringsstyrk sem var í því góðæri.

Athuga ber að almennt aðgengilegar upplýsingar um loftslag eru oft óáreiðanlegar, óskhyggja, ágiskanir og jafnvel falsanir frá stofnunum og fólki sem eru í gíslingu nýju grýlunnar.

Loftslagshlýnunin er okkur sagt að sé vegna þess að vaxandi koltvísýringur taki upp vaxandi hluta af varmageisluninni frá jörðinni sem annars færi út úr gufuhvolfinu. Í þessu felst grófasta rangfærslan um loftslagsbreytingar. Það rétta er að gróðurhúsalofttegundirnar sem fyrir eru í lofthjúpnum taka nú þegar upp nær alla útgeislun sem þær á annað borð geta tekið upp. Það breytist lítið þótt meira verði af þeim í loftinu. Koltvísýringurinn tekur aðallega upp bylgjulengdirnar 4,3 og 14,9 míkron, haugloft aðallega 3,8 og 8 míkrón en útgeislunin sem sleppur út úr gufuhvolfinu er ekki á þeim bylgjulengdum heldur aðallega í kringum 10 míkrón, sem gróðurhúsalofttegundirnar geta ekki tekið upp.

Gróðurhúsaáhrifin stafa aðallega (9/10) af loftraka. Áhrifaþættir loftslags eru margir, s.s. ský, geimgeislar og sólin sem yfirgnæfir. Áhrif, samspil og þróun þáttanna er ekki vel þekkt, líklega mun langur tími líða þar til full yfirsýn næst. Þó er orðið ljóst að aðalatriði varmaupptöku lofttegundanna upplýsast með innrauðu bylgjurófi þeirra og geislastyrksmælingum eins og lýst var hér á undan þótt þeir sem skálda grýlusögurnar reyni að gera málið flóknara. Hitastig samkvæmt öruggum mælingum síðustu 100 árin hefur ekki staðfest hlýnunaráhrif koltvísýrings, t.d. var kólnun á árunum 1965-1979 þótt koltvísýringurinn hafi verið í vexti. Rannsóknir á loftslagi fyrri skeiða sýna að koltvísýringur og hitastig breytast óháð hvort öðru þótt viss aukning koltvísýrings verði jafnan eftir að loftslag hlýnar.

Kolefnissporið spillir ekki loftslaginu, sú grýla má gefast upp á rólunum strax áður en hún tekur okkur í pokann og fer með okkur til Leppalúða. Fátækir Indverjar geta haldið áfram að nota kolin sín, það gagnast okkur í uppskerunni. Og við getum keyrt áfram á góðum bílum í fallegu vindmyllulausu landi. Loftslagsbreytingar vegna „kolefnisspors“ mannkyns verða aldrei annað en dropi í haf stöðugra náttúrulegra loftslagsbreytinga; hlýnunar fyrir 11.700 árum, kólnunar síðustu 8.000 árin, sveiflna inn á milli og áfram.

https://www.frjalstland.is/wp-content/uploads/2021/03/Loftslag-%C3%A1-%C3%8Dslandi.pdf

Greinin er eftir Friðrik Daníelsson, efnaverkfræðing, og birtist fyrst í Morgunblaðinu 2.12.2021. 

This entry was posted in EES, Umhverfismál. Bookmark the permalink.