Eftir Elías Elíasson
“Við skulum vona að Landsneti auðnist að finna það form á markað sem myndar hæfan ramma um þau viðskiptatækifæri sem möguleg eru á íslenska raforkumarkaðnum.”
Í grein sinni (Mbl. 4/3-‘20) birtir Skúli Jóhannsson upplýsingar um raforkuverð til Ísal með nákvæmari hætti en mér var unnt í minni grein (Mbl. 25/2-2-‘20) án þess að eiga á hættu ásakanir um trúnaðarbrot. Málið liggur því ljósar fyrir, þökk sé honum.
Orkuverðið
Gildandi lög um viðskipti með rafmagn eru skrifuð af ESB að mestu án aðkomu Íslands og innleidd í EES-samningin án nauðsynlegrar aðlögunar að íslensku raforkukerfi. Raforkusamninga við stórnotendur þarf síðan að leggja fyrir ESA. Greinargerð ESA um samningana við Ísal var lögð fyrir Alþingi og er opinbert plagg. Það upphafsverð fyrir raforkuna sem Skúli nefnir, 32,06 USD/MWh, er í góðu samræmi við greinargerð ESA og lokaverðið nú, 38 USD/MWh, er samhljóma þeim ágiskunum sem sést hafa í blöðum undanfarið. Algengt var að orkuverð til álvera tengdist álverði og niðurstaða Skúla merkir því, að til þess að ÍSAL haldi samkeppnisstöðu sinn á markaði eins og hún var við gerð samninganna, þurfi orkuverð að lækka um 30%. Samkeppnisstaðan hefur því versnað verulega.
Áhrif ESB
Áhrif ESB á þessa samninga eru veruleg. Á ársfundi Landsvirkjunar 2016 birti Hörður Arnarson forstjóri stefnu fyrirtækisins sem lýst var svo: „Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.“ Í umfjöllun sinni lét hann þess svo getið að samkvæmt lögum gæti stefna fyrirtækisins ekki verið langt frá því sem í þessum orðum felst. Lögin sem hann vitnaði til eru lög ESB innleidd í EES-samninginn. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo að allur arður af þessum auðlindum þjóðarinnar skuli skila sér inn í Landsvirkjun lögum samkvæmt. Þjóðin sjálf eða fulltrúar hennar hafa engan rétt til að hlutast til um hvar í þjóðfélaginu þessi arður komi fram. Með þessu er þrengt að þeim sveigjanleika sem hér þarf að vera til að skapa íslensku atvinnulífi viðunandi samkeppnisstöðu gagnvart þeim sem eru nær mörkuðunum á meginlandi Evrópu.
Forstjórinn gat þess einnig í Kastljósþætti RÚV á dögunum að fyrirtækjasamstæður hefðu visst svigrúm til að ákveða hvar arður samstæðunnar kemur fram. Samkvæmt túlkun hans á (ESB)-lögunum hefur íslenska þjóðin sem eigandi raforkufyrirtækjanna ekki hliðstætt svigrúm til að hlutast til um hvar arðurinn af orkunni kemur fram. Þessu þarf að breyta.
Raforkumarkaðurinn
Oft hef ég áður látið þá skoðun í ljósi að raforkumarkaður ESB henti ekki hér og ekkert nýtt að Skúli skilji það ekki. Eftir að stefnan var tekin á orkuskipti hér á landi, sem gengur út á að nota rafmagn í stað eldsneytis, er orðið nokkuð augljóst að raforkukerfið hér gegnir sama hlutverki og allt orkukerfi Evrópu frá orkunámum (gaslindir, olíulindir, kolanámur, úrannámur) til notenda. Frá þessum orkunámum berst orkan til lagers við landamæri og síðan eftir flóknum flutningsleiðum frá einum lager til annars, þar með inn á lagera raforkuveranna og að lokum til notenda. Orkufyrirtækin, hvaða orku sem þau annars versla með, keppa síðan um að selja orkuna hvert frá sínum lager á næsta áfangastað. Þessar flutningsleiðir og lagerar gegna afar mikilvægu hlutverki í verðmyndun orkunnar og þar á samkeppnin sér stað, bæði milli fyrirtækja og einstakra orkuforma. Íslenska raforkukerfið hefur aðeins eina flutningsleið, raflínur, og enga slíka lagera. Því er tómt mál að tala um samkeppnismarkað orku hér á landi með sama hætti og í Evrópu.
Húseigandi í Reykjavík á kost á hitaveitu í hús sitt en á ekki völ á neinni annarri orku til þeirra nota. Rafmagn er miklu dýrara, engar gasleiðslur eru í bænum og kolaofnar eru ekki sérlega álitlegur kostur. Samkeppnin er einfaldlega ekki fyrir hendi á sama hátt og í Evrópu og raforkumarkaður hér, án tengsla við eldsneytismarkaði, virkar ekki á sama hátt. Þau viðskiptatækifæri sem myndast á flóknum orkumörkuðum Evrópu myndast ekki hér og reglugerðir ESB með sínum stranga aðskilnaði milli fyrirtækja ýta ekki beinlínis undir að þau tækifæri séu nýtt sem þó kunna að vera fyrir hendi. Menn geta til dæmis spurt sig hvort Hitaveita Reykjavíkur væri til í að fjárfesta í tengingum og kaupa afgangsvarma frá tölvum gagnavers hliðstætt samningunum sem gagnaver Advania náði í Svíþjóð.
Lokaorð
Við skulum vona að Landsneti auðnist að finna það form á markað sem myndar hæfan ramma um þau viðskiptatækifæri sem möguleg eru á íslenska raforkumarkaðnum. Hugmyndaauðgin sem sést hefur í þeim efnum hér á landi hingað til ásamt fylgni við reglur ESB gefur hins vegar ekki góðar vonir um árangur.
Elías Elíasson er sérfræðingur í orkumálum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7.3.2020