Þingmálaskrá 155. löggjafarþings 2024–2025, EES-mál.

Í þingmálaskránni eru tæplega 200 mál sem ríkisstjórnin leggur fyrir Alþingi að samþykkja. Þar af eru næri þriðjungur sem eru ný valdboð frá ESB vegna EES eða afleiðingar afskipta ESA af íslenskri stjórnsýslu, svipað hlutfall og síðustu ár. Þar eð íslenskt lagasafn hefur fengið urmul af ESB/EES-lögum eru mörg þingmál afleiðing af fyrri EES-löggjöf, slík mál er oft erfitt að rekja með vissu til EES þar eð þingmálaskráin telur ekki fram hvaða tilskipanir hafa haft áhrif á lögin. Margar tilskipanir geta verið í eða snert hvert mál, til dæmis eru þingsályktanirnar sumar fjöldi tilskipana.

https://www.stjornarradid.is/rikisstjorn/thingmalaskra/

Lagafrumvörp. Flest EES-málin eru lagafrumvörp, svo kallaðar innleiðingar á tilskipunum ESB, en einnig er mikill fjöldi af þingsályktunum sem eru einnig tilskipanir frá ESB sem sameiginlega EES-nefndin hefur stimplað. Fjármálaráðuneytið, Viðskiptaráðuneytið, Umhverfisráðuneytið og Utaníkisráðuneytið skera sig úr með fjölda EES-mála.

Fjármálaráðuneytið ætlar að setja fjölda laga um ýmiss konar fjármálastarfsemi. Það virðist vera að bera í bakkafullan lækinn en laga- og reglufjöld EES um fjármálastarfsemina er þegar orðin í ofgnótt.

Viðskiptaráðuneytið ætlar að setja fleiri lög frá ESB um s.k. markaðsmál og neytendamál sem eru jafnan höft á viðskipti eða til að útiloka samkeppni frá öðrum svæðum.

Umhverfisráðuneytið leggur fram fjölda mála tengd „loftslagsmálum“ . Þar á meðal eru mál sem fyrirskipa mjög íþyngjandi skattlagningu á byggingar, samgöngur og smáiðnað, kallað ETS-kerfi sem flugið og iðjuverin falla undir nú þegar. Einnig eru óframkvæmanleg lög um „endurnýjanlega orkugjafa“ fyrir flug-, sjó- og landsamgöngur sem mæla fyrir um tilbúið eldsneyti án tillits til kostnaðar sem í öllum tilvikum er tröllvaxinn og ókleifur fyrir fyrirtæki í greinunum. Einnig eru fyrirmæli um að auka framleiðslu og niðurgreiðslur ríkissjóðs á „orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum“ sem þýðir stóra bagga á skattgreiðendur vegna sólorkuvera og vindmyllugarða sem ESB-fyrirtæki hyggjast reisa hérlendis.Tilskipanirnar um „loftslagsmál“ eru sérstaklega óaðgengilegar og óréttlátar fyrir Ísland sem er leiðandi í framleiðslu og notkun reyklausrar orku.

Utanríkisráðuneytið ætlar að láta Alþingi samþykkja bókun 35 til þess að tryggja að EES-lög séu æðri landslögum. Einnig leggur ráðuneytið fram fjöldan allan (12 mál) af þingsályktunum sem eru tilskipanir frá Evrópusambandinu um als kyns mál sem Evrópusambandið telur sig eiga að stjórna hér.

This entry was posted in EES. Bookmark the permalink.