Lygar um ríkisfyrirtæki

Klíkur stjórnmálaflokka vilja koma bönkum og fleiri fyrirtækjum þjóðarinnar alfarið úr almannaeigu í hendur gróðabrallara. Reynslan af einkavæðingu ríkisfyrirtækja á Íslandi og víðar er að gróðabrallararnir eyðileggja þau eða fara með þau þangað sem þeir geta mjólkað þau i friði.

Spilltir og fákunnugir íslenskir stjórnmálamenn, blindaðir af bábiljum s.s. nýfrjálshyggjukenningum, afhentu sínum flokksbræðrum fyrirtæki þjóðarinnar, með góðu eða illu, blekkingum eða lygum. Bankakerfið var afhent í heild sinni en það hafði haldið landsmönnum og þeirra fyrirtækjum gangandi í áratugi mestu uppbyggingar í sögu Íslands.

Nýfrjálshyggjan var að sjálfsögðu hönnuð til þess að efla stórfyrirtæki Bandaríkjanna í einkaeigu og úthugsuð til þess að hjálpa þeim að rupla og féfletta trúgjarnan almenning um heimsbyggðina. Til voru vísir menn um allan heim sem vörðust og höfnuðu falskenningunum. Og margir öflugir bankar https://en.wikipedia.org/wiki/Public_bank og stórfyrirtæki https://sg.finance.yahoo.com/news/singapore-airlines-reports-record-operating-233000277.html?guccounter=1 út um allan heim eru áfram í almannaeigu og sum í fremstu röð. Einkabankar enda oft á hausnum og á framfæri almennings eins og einkavæddu íslensku bankarnir gerðu 2008.

Bábiljuspekingar og nýfrjálshyggjuafturgöngur eru enn á kreiki, líka hér á Íslandi. Þeir vilja einkavæða helst allt sem þjóðin á eftir og veifa falsrökum að þurfi að spara. Þeir einkavæddu ekki bara banka þjóðarinnar um aldamótin síðustu heldur komu líka á regluverki EES sem var himnasending fyrir braskarana, gaf þeim starfsleyfi í ESB/EES og heimilaði bæði nýju eigendunum, vildarvinunum og bankastjórunum að maka krókinn með fé bankanna. Íslensku gróðabrallararnir voru svo grænir að þeir áttuðu sig ekki á að verðir heimsfjármálamiðstöðvarinnar í London, þar sem þeir höfðu plantað sér, mundu aldrei þola fiskimannasonum ofan af Klakanum  að kroppa í svikamyllu fjármálafinngálknsins í Bretlandi. Enda kom á daginn að Bretar gjaldþrotuðu þá og allt íslenska bankakerfið í leiðinni. Og íslenskir skattgreiðendur fengu allt í fangið eins og við mátti búast.

Fjárplógsklíkur stjórnarflokkanna segja að ríkið eigi að selja sinn hlut í bönkunum með ýmsum barnslegum afsökunum svo sem  “nota féð í innviði-” (gáfnaljós eiga að vita að bankar eru mikilvægir innviðir). Þeir ætla næst að koma hlut þjóðarinnar í Íslandsbanka til sinna velunnara.

Einkavæðingin ásamt með löggildingu EES-bankaregluverksins setti marga Íslendinga í þrot og fór nærri að setja Ísland í þrot. Þrátt fyrir að neyðarlög hafi tekið EES úr sambandi og Ólafur Ragnar og Sigmundur Davíð hafi bægt hrægömmunum frá og bjargað ríkissjóði, standa löskuð flök af gömlu þjóðarbönkunum, og áframahaldandi áþján EES, í vegi fyrir að unga fólkið geti byggt upp sitt húsnæði og sinn efnahag eins og nokkrar kynslóðir Íslendinga hafa getað gert.

Stór hluti bankakerfisins þarf að vera í almannaeigu og í sparisjóðakerfi til þess að geta þjónað Íslendingum en ekki peningaþvottalögreglu Evrópusambandsins og EES.

https://www.frjalstland.is/2023/07/01/fataektarmenning/

https://www.newyorker.com/magazine/2023/07/24/the-rise-and-fall-of-neoliberalism

https://consortiumnews.com/is/2022/07/01/ukraine-is-the-latest-neocon-disaster/ (tölvuþýðing)

Ríkisfyrirtæki ganga mörg vel, dæmi eru mörg um öflug ríkisfyrirtæki utan miðstýrðra hagkerfa: Equinor (Norski olíuiðnaðurinn er í meirihlutaeigu norska ríkisins, Statoil, Saga, Norsk Hydro nú Equinor), Saudi Aramco (Saudi Arabia), Petrobras (Brasiliía), LKAB (sænska ríkið), EDF (Frakkland), Singapúr airlines (Singapúr 56%)

Íslensk ríkisfyrirtæki hafa byggt upp landið, dæmi: Landsvirkjun, RARIK, Búnaðarbankinn (gamli), Landsbankinn (gamli), Útvegsbankinn (settur í Íslandsbanka), Fiskveiðisjóður („sameinaður“) eins og aðrir atvinnuvegasjóðir, Kísiliðjan (var lokað), Áburðarverksmiðjan (einkavædd og var lokað), Síldarverksmiðjan (einkavædd), Áburðarverksmiðjan (einkavædd og var lokað), Skipaútgerð ríkisins (var lokað), Póstur & sími (splundrað).

Afskipti illa upplýstra íslenskra stjórnmálamanna af íslenskum ríkisfyrirtækjum hafa yfirleitt skilið eftir sig tóm eða orðið til þess að ríkið þarf að leysa til sín fyrirtækin eða bjarga þeim þegar einkaeigendurnir hafa tekið til sín of mikið af eignum þeirra.

This entry was posted in Bankar, EES, Utanríkismál. Bookmark the permalink.