Misskilningur um EES-samninginn stendur í vegi fyrir sókninni til fullveldis.
Samtökin Frjálst land, Heimssýn og Orkan okkar spurðu framboðin til kosninganna um afstöðu þeirra til fullveldis, lýðræðis og sjálfstæðis. Í svörunum við spurningum 2 og 3 (sjá færslu hér á undan) kom í ljós að af þeim níu sem svöruðu voru tvö, Miðflokkurinn og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, sem tóku afdráttarlausa afstöðu með fullveldi og sjálfstæði og endurskoðun eða uppsögn EES-samningsins. Flokkur fólksins, Vinstri-grænir og Sósíalistaflokkurinn höfðu ekki fullmótaða afstöðu. Framsókn svaraði ekki. Í svörum annarra flokka kom fram misskilningur um EES-samninginn:
Samfylkingin svaraði m.a.: „Land og þjóð nýtur góðs af þeim fjölmörgu réttindum og viðskiptatækifærum sem með samningnum hlýst. Með EES-samningnum fæst miklu meira en fengist með fríverslunarsamningi. EES-samningurinn hefur m.a. tryggt ýmsar réttarúrbætur hér á landi og opnar fyrir aðgengi Íslendinga að fjórfrelsi Evrópusambandsins sem tryggir Íslendingum aukið frelsi og aðgang að mörkuðum og atvinnutækifærum í hinu stóra samfélagi þjóða sem Evrópusambandið spannar.“
Hér kemur röð af misskilningi: Mikilvægasti hluti hinna fjölmörgu réttinda var þegar umsaminn við ýmis lönd V-Evrópu löngu fyrir EES og hefði þróast áfram án EES. Viðskiptatækifærin voru líka flest löngu komin, aðallega með fríverslunarsamningnum 1972 sem er enn í fullu gildi og tryggir tollfrjálsan aðgang að markaði ESB með helstu útflutningsvörur landsins. Aftur á móti spillti EES ýmsum viðskiptatækifærum við alþjóðamarkaði með viðskiptahindrunum (NTB) og refsiaðgerðum gegn mikilvægum viðskiptalöndum eins og Rússlandi. Að EES hafi tryggt réttarúrbætur er öfugmæli; hann hefur valdið þarflausum og skaðlegum áhrifum á frelsi landsmanna. EES-tilskipanafjöldinn og meðfylgjandi eftirlitsskrifræði hamlar framtaki, framkvæmdum og framförum. EES hefur m.a. spillt orkugeiranum, fyrirtækjamarkaðnum, komið á óþörfum kvöðum og álögum og spillt fjárhag fyrirtækja, ríkisins og sveitarfélaga. Að Íslendingar hafi „aðgengi“ að fjórfrelsinu er misskilningur á hugtakinu. „Fjórfrelsi“ gengur í báðar áttir og er ein af fyrirmælum ESB í EES-samningnum um að aðildarlönd EES setji ekki hömlur á vöru- og þjónustuviðskipti, fjármagnsflutninga og fólksflutninga milli aðildarlanda. ESB setur þó sjálft miklar hindranir á viðskipti. Fjórfrelsisákvæði ESB hafa valdið miklum skaða hérlendis og litlu gagni. ESB-fyrirtæki hafa ekki fjárfest mikið í uppbyggingu á Íslandi, þeir sem fjárfesta hér eru aðallega enskumælandi. Frjálst flæði fjármagns fór nærri því að setja Ísland í ruslflokk í hruninu þegar inn í landið voru fluttar „frjálst“ gífurlegar fjárhæðir. „Frjáls“ innflutningur fólks er stjórnlaus og löngu kominn úr böndunum. Frjálst flæði þjónustu hefur m.a. gert að EES-fyrirtæki hafa keypt upp íbúðablokkir til þess að leigja út og gera ungt fólk að leiguliðum andstætt íslenskri eignamenningu.
Sjálfstæðisflokkurinn svaraði m.a.: „Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja áfram opinn og frjálsan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins. Sjálfstæðisflokkurinn vill því áfram byggja samskipti sín við Evrópusambandið á EES-samningnum.“
Þessi afstaða Sjálfstæðisflokksins er furðu lífseig; EES er ekki nein forsenda aðgangs að mörkuðum ESB, sem sést m.a. á viðskiptum Sviss og Bretlands auk t.d. Suður-Ameríku, Kanada o.fl. sem standa utan „innri markaðarins“. Fríverslunarsamningnum frá 1972 þarf ekki að segja upp þótt Ísland yfirgefi EES. Að EES-samningurinn sé um „samskipti“ er villandi; EES er að mestu um valdsvið ESB og hvernig á að koma tilskipanavaldi (löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi) og dómsvaldi ESB í framkvæmd á Íslandi.
Píratar svöruðu m.a.: „Við fáum aldrei betri samning við ESB en EES-samninginn.“
Þetta er ein helsta bábiljan um EES; mörg viðskiptalönd ESB, utan EES, hafa svipaða eða betri samninga en Ísland. Sviss og Bretland hafna EES-samningnum alfarið, standa utan „innri markaðarins“ en hafa verslunarsamninga við ESB, Sviss er með uppfærðan fríverslunarsamning frá 1972 eins og Ísland.
Viðreisn svaraði m.a.: „Viðskiptahagsmunum Íslands – og margvíslegum öðrum hagsmunum – væri mun verr þjónað með hefðbundnum fríverslunarsamningi en með þeirri aukaaðild að innri markaði Evrópu sem EES-samningurinn færir okkur, með fullri þátttöku í fjórfrelsinu svonefnda (frjálsri för vara, þjónustu, fólks og fjármuna), að meðtalinni þátttöku í rannsóknasjóðum, starfsþjálfunar- og skiptinámsáætlunum.“
EES er ekki forsenda aðgangs að mörkuðum ESB. Hinn margumtalaði „innri markaður“ ESB hrörnar hratt meðan alþjóðamarkaðir eflast, aðildin að EES stendur í vegi fyrir frjálsum viðskiptum Íslands við alþjóðamarkaði vegna viðskiptahindrana ESB. „Þátttaka“ í fjórfrelsinu (þ.e. blind hlýðni) tók nauðsynleg stjórntæki frá íslenskum stjórnvöldum og hefur valdið stórskaða. Aðgangur að rannsóknafé, þjálfunar- og skiptinemakerfum er á forsendum ESB og til þess fallið að afla sambandinu stuðnings. „Styrkir“ gefa Íslandi yfirleitt lítinn ávinning en tímabundin störf við áhugamál ESB, styrkir eru fáanlegir frá ýmsum öðrum löndum.
Friðrik Daníelsson, greinin birtist í Morgunblaðinu 21.9.2021