Þingheimurinn sem skilar af sér á þessu ári hefur komið mörgum kostnaðarsömum og íþyngjandi kvöðum frá ESB á íslensku þjóðina sem munu auka óþarfar byrðar á fyrirtæki og einstaklinga og skriffinnsku ríkisstofnana og sveitarfélaga og rýra ráðstöfunartekjur þjóðarinnar. Á kjörtímabilinu eru áhöld um stjórnarskrárbrot EES þekktust í tengslum við persónuverndarlög, 3. orkupakkann, samkeppnislög og bankaregluverk.
Valdboðum ESB/EES höfðu íslensk stjórnvöld í engu tilviki kjark til að vísa frá. Kröfu ESB um að ESB-fyrirtæki fái aðgang að orkulindum Íslands hefur enn ekki verið vísað frá. Sýndarlög voru sett í fyrra, sögð til að stöðva uppkaup útlendinga á landi. Vaxandi ágengni niðurgreiddra landbúnaðarvara frá ESB er að spilla grundvelli landbúnaðarins. Hagkvæmur innflutningur vöru af alþjóðamarkaði verður stöðugt háður meiri kvöðum EES/ESB. Regluverk ESB/EES dregur meir og meir aflið úr mikilvægum íslenskum fyrirtækjum. Regluverkið um orkumál, okur á óþarfar losunarheimildir og falsanir um uppruna orku valda uppnámi í orkukerfi og iðnaði. Regluverkið um „loftslagsmál“ er orðið risavaxið og kostnaðurinn óheyrilegur og vex hratt. Schengensamningurinn hefur sýnt sig að vera ekki aðeins ónýtur heldur hættulegur..
Vond EES-mál voru afgreidd síðasta þingdaginn, 13.6., það er venju samkvæmt að ríkisstjórnin komi slíkum málum gegnum Alþingi á síðasta degi þegar þingmenn eru orðnir þreyttir:
1) Lög um um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni. Í greinagerð laganna er opnað á að land verði selt erlendum fyrirtækjum undir orkuver þó á öðrum stað sé sagt að það sé ekki samkvæmt lögunum. Lögin innifela þannig vafaatriði eins og Landsvirkjun benti á í athugasemd og færa Ísland enn einu skrefinu nær því að ESB-fyrirtæki eignist orkuauðlindir landsins. Lögin eru sett í framhaldi af valdboðum frá ESB um m.a. opinber innkaup og ríkisaðstoð. https://www.althingi.is/altext/151/s/0900.html
2) Lög um meðferð úrgangs -um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald (EES-reglur, hringrásarhagkerfi). Lögin eru tískuhlaðin og allt of flókin og mjög kostnaðarsöm, henta Íslandi ekki og eru óframkvæmanleg að stórum hluta og byggð á undirmálsvísindum. Þau eru að innihaldi 4 EES-tilskipanir: 2018/850, 2018/851, 2018/852, 2019/904. https://www.althingi.is/altext/151/s/1187.html
3) Lög um kolefnishlutleysi–um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 (markmið um kolefnishlutleysi). Þessi lög eru óþörf viðbót við einhver óþörfustu og dýrkeyptustu ESB-lög sem Ísland hefur þurft að setja vegna EES. Upprunalegu lögin um „loftslagsmál“ voru 10 EES-tilskipanir. https://www.althingi.is/altext/151/s/1190.html
Sumt af því sem Alþingi gerði af eigin rammleik og frumkvæði er til gagns og nauðsynja. Sum slæm mál var hægt að stöðva, s.s. háfleygar hugmyndir um friðun örfokalands. Stjórnarskrárbreytingar voru stöðvaðar en þar voru á ferðinni lélegar tillögur þar sem tekið var á ýmsu nema mikilvægasta málinu, sjálfstæði landsins og ólögmætu framsali stjórnvalds eins og varð 12. janúar 1993 þegar 33 af 63 þingmönnum samþykktu EES-samninginn sem leiddi ESB til valda á Íslandi.