Samkeppniseftirlitið starfar samkvæmt samkeppnislögunum sem voru fylgifiskur EES samningsins og ein fyrstu yfirþjóðlegu lögin frá ESB. Þau voru uppfærð 2004 en fleiri en veigaminni breytingar hafa verið gerðar á þeim. Lögin henta ekki á Íslandi en færðu vald til bæði ESB og stofnana EES. Yfirstjórn málaflokksins er hjá ESB.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Brims, var ómyrkur í máli þegar hann ávarpaði aðalfund fyrirtækisins síðdegis í gær. Gagnrýndi hann þar Samkeppniseftirlitið (SKE) harkalega og fullyrti að með framgöngu sinni væri stofnunin endurtekið að veikja samkeppnishæfni íslenskra útflutningsfyrirtækja sem ættu í harðri samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum. Guðmundur er þriðji forstjóri félags sem skráð er í Kauphöll Íslands sem á skömmum tíma stígur fram með alvarlegar athugasemdir við starfsemi stofnunarinnar. (Mbl 26.3.2021)
Samtök atvinnulífsins vilja nú fá stjórnsýsluúttekt á Samkeppniseftirlitinu og framferði stofnunarinnar. Þau vísa í kvartanir frá stjórnarmönnum fyrirtækja og óhóflegar þóknanir sem „óháðir kunnáttumenn“ sem eftirlitið skipar hafa tekið (Fréttabl. 30.3.2021). Samtök atvinnulífsins virðast ekki fara fram á úttekt á samkeppnislögunum þó þau séu grundvallarástæða þeirra vandræða sem málaflokkurinn er í.
Óli Björn Kárason, formaður efnahgs- og viðskiptanefndar Alþingis segir (Fréttabl. 31.3.2021): „Mikilvægt er að samkeppnislög séu með þeim hætti að þau tryggi sanngjarna samkeppni en um leið er nauðsynlegt að stjórnsýslan í kringum eftirlitið sé skjótvirk og málefnaleg“. Málefni Samkeppniseftirlitsins verða tekin fyrir þegar nefndin kemur aftur saman eftir páskafrí.
Íslenska minnimáttarkenndin gagnvart útlendingum hefur verið landinu dýrkeypt. Alþingismenn héldu að samkeppnislög ESB væru svo merkileg að þeir samþykktu þau í febrúar 1993 áður en EES-samningurinn gekk í gildi. Þau brjóta réttindi landsmanna en veita erindrekum EES og ESB heimild til að ganga að Íslendingum.
Lagaumhverfi fyrirtækja á Íslandi varð með EES-samningnum fjandsamlegt nýsköpun, uppbyggingu og þróun. Samkvæmt skoðunum reyndra lögfræðinga voru EES-samningurinn og samkeppnislögin brot á stjórnarskránni. Þau færðu íslenskt efnahagslíf nær stöðnuninni sem ríkir í ESB
Samkeppnislögin og stofnanirnar um þau, núna heitir það Samkeppniseftirlitið, hafa staðið í vegi fyrir þróun fyrirtækjamarkaðar, fjárfestinga og hagræðingar. Sem dæmi eru afskipti Samkeppnisstofnunar af nauðsynjavöruverslun á landsbyggðinni. EES-samningurinn átti ekki að ná til sjávarútvegsins en nú er orðið ljóst að hann hamlar þróun sjávarútvegsins eins og annarra atvinnuvega landsins.