Vera Íslands í EES er hægt en örugglega að ganga af stórum hluta iðnaðarins dauðum. Orkukerfi landsins er orðið dýrt í rekstri og uppbyggingu af völdum regluverks ESB vegna EES. Orkufyrirtækin eru farin að krefja íslensk fyrirtæki um of hátt orkuverð. Ofaná bætist kostnaður fyrirtækjanna við að uppfylla reglugerðir, kvaðir og skatta samkvæmt ESB/EES sem ekki eru lagðar á í helstu samkeppnislöndunum, til dæmis kvöð að kaupa dýrar koltvísýrings-losunarheimildir.
ESB segist ætla að reyna að fá iðnaðinn í ESB til að vera kjurran en stór hluti er þegar farinn, þar á meðal stór hluti álveranna. Það á að gera með með ýmsum niðurgreiðslum og meðgjöfum frá skattgreiðendum eins og venjulega hjá ESB. Þeim dettur ekki í hug að gera rekstrarumhverfið heilbrigðara með að afnema óþarfa kvaðir og skatta. Orðskrúðið um kolefni og aðgerðir í því sambandi sýnir að ESB er einangrað í sínum kreddum um „loftslagsmál“ og baráttu við koltvísýring. Og vegna EES situr Ísland fast í draumórum ESB.
Pétur Blöndal lýsir (texti innan gæsalappa) kviksyndinu sem ESB er komið í :
Kolefnisleki -“En vandinn til langs tíma lýtur að framleiðslukostnaði í ESB. Nú hefur ESB nýlokið vinnu við endurskoðun á regluverki vegna niðurgreiðslna til orkusækins iðnaðar í ESB fyrir árið 2021-2030. Niðurstaða þeirrar vinnu er sú að álframleiðsla verður áfram á kolefnislekalista á sameiginlegum orkumarkaði ESB, en í því felst að framkvæmdastjórn ESB metur stöðuna þannig að hætta sé á að álframleiðsla hrekist frá ESB ef of miklum kostnaði er velt á greinina. -“
Regluverk og losunarheimildir of dýr -“Í könnun sem CEPS gerði fyrir framkvæmdastjórn ESB í árslok 2013 kom fram að regluverk ESB bætti að meðaltali 8% ofan á framleiðslukostnað áls í ESB og jafnframt að raforka væri stærsti kostnaðarliðurinn við framleiðslu áls. Fram kom að 86% af kostnaðinum við regluverk ESB tengdust raforkuverði, annaðhvort beint eða í gegnum ETS, viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. -“
Verð á losunarheimildum hefur fimmfaldast -“Til þess að mæta þessu hefur einstökum ríkjum innan ESB verið gert kleift að niðurgreiða raforku til álframleiðslu svo um munar, en það á að mæta kostnaði sem hleðst ofan á orkuverðið vegna kaupa orkuvera á losunarheimildum. Það gefur auga leið að sá kostnaður er verulegur í þeim tilfellum þar sem orkan er sótt í jarðefnaeldsneyti á borð við kol eða gas. Það hefur því orðið grundvallarbreyting á verðlagningu orku til álvera í Evrópu frá árinu 2013, ekki síst á undanförnum árum þar sem verð á losunarheimildum hefur fimmfaldast. -“
EES bannar Íslandi að niðurgreiða orku -“Nú er orðið ljóst að þetta niðurgreiðslukerfi verður við lýði til ársins 2030 og er það undir stjórnvöldum hvers ríkis innan ESB komið hvort þau nýta sér þessa heimild, en hingað til hefur það tíðkast í samkeppnislöndum okkar, svo sem Noregi, Þýskalandi og Frakklandi. Þar sem Ísland er ekki aðili að sameiginlega orkumarkaðnum leyfast slíkar niðurgreiðslur ekki hér. Mikilvægt er að stjórnvöld hér á landi hafi þetta í huga þegar þau bera saman orkuverð hér á landi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. -“
Ál er grænt efni -“Ál er á lista ESB yfir hráefni sem eru mikilvæg „græna samkomulaginu“ sem felur í sér að Evrópa verði kolefnishlutlaus árið 2050 -“ (Pétur blöndal, Viðskiptablað Mbl 23.9.2020)
Ísland er fast í dýru raforkukerfi sem spillst hefur með EES og óstjórn heimafyrir og er að koma framleiðslufyrirtækjum landsins í strand. Óþarfir skattar og kvaðir og kaup losunarheimilda ESB spilla rekstri fyrirtækjanna. Og vegna EES eiga stjórnvöld Íslands ekki að fá að ráða hvort rafmagnið til iðnaðarins verði niðurgreitt. En orkufyrrtækin flest eru í eigu ríkis og bæja þannig að ef íslensk stjórnvöld hafa kjark geta þau látið orkufyrirtækin stilla orkuverðinu hér í hóf og afnumið verstu kvaðir ESB sem hafa komið löngu eftir að EES-samningurinn var gerður.