Íslensk stjórnvöld létu að nauðsynjalausu draga landið undir stjórnvald ESB í s.k. loftslagsmálum í tengslum við EES-samninginn. Það þýðir að „aðgerðir“ ESB í loftslagsmálum eru líka fyrirskipaðar hér, þar á meðal endurheimt votlendis með því að moka ofan í framræsluskurði sem grafnir voru til þess að breyta mýrum í nytjaland. Öruggan vísindalegan rökstuðning vantar fyrir aðgerðunum.
Mýrar senda frá sér mýragas (haugloft) sem er að stofni til metan. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, telur metan vera meir en 20 sinnum öflugri „gróðurhúsalofttegund“ en koltvísýring. Fyrir um þrem áratugum var haldið að allt votlendi Jarðar sendi frá sé rúmlega 100 megatonn af metani á ári út í lofthjúpinn. https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/0045653593904277 . Áætlanir hafa síðan vaxið í um 200 megatonn. Það eru gerlarnir sem lifa í vatninu sem gefa frá sér metanið, það ildist í koltvísýring í lofthjúpnum og nýtist þá sem næring fyrir gróðurinn.
IPCC (og ESB) hafa haldið fram að votlendi bindi mikinn koltvísýring og að jákvæð „loftslagsáhrif“ þess séu meiri en „gróðurhúsaáhrifin“ af haugloftinu sem votlendið losar út í lofthjúpinn. Áreiðanlegar mælingar á losun og bindingu loftegundanna fyrir og eftir endurheimt liggja ekki á lausu, tölurnar eru oft ágiskanir frá aðilum sem setja þær fram í áróðursskyni eða skortir þekkingu á vísindunum. Rannsókn á vegum Restoration Ecology sýnir að tölur um losun gróðurhúsalofttegunda frá votlendi eru ekki áreiðanlegar: „Sérstakt áhyggjuefni er að aðeins þriðjungur rannsóknanna voru gerðar á eftir endurheimt votlendisins og enn færri fjölluðu um meir en 10 ára gamla endurheimt. Göt í þekkingargrunninn þýða að núverandi skilningur á árangri af endurheimt votlendis er tilraunakenndur. Þörfin fyrir mat mimunandi staðaraðstæðna er mikil ef réttlæta á fjárfestingar og ákvarðanir“ https://doi.org/10.1111/rec.12889
Umhverfisráðuneytið og stofnanir þar undir halda „bókhald“ yfir losunina. Tölurnar sem fara inn í bókhaldið eru ekki byggðar á traustum rannsóknum heldur eru fengnar samkvæmt forskriftum ESB og IPCC. Nýlega var sagt að 60% af losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum 2017 hafi komið úr framræstu mýrlendi, nærri 8,5 megatonn af koltvísýringsígildum það árið. Það er úr lausu lofti gripið. https://www.bbl.is/frettir/frettaskyring/fullyrdingar-byggdar-a-agiskunum-en-ekki-visindalegum-gognum/22538/
Framræst land sem breytt er í nytjaland, beitarland og ræktarland, bindur mikið af koltvísýring og sleppir litlu mýragasi út. Afkastamesta aðferðin til að binda koltvísýring og draga úr metanlosun er því að rækta framræstar mýrar upp. Það er eyðilegging á landbúnaðarlandi að moka ofan í framræsluskurði til að búa til mýrar sem verða eldisstöðvar bitvargs og óloftandi fúafen, varasamt dýrum og jafnvel mönnum.
Endurheimt votlendis er eyðilegging á áratuga uppbyggingu búskapar og nytjalands og vanvirðing við ræktunarfúsa íslenska bændur. Árangurinn er af ESB og Umhverfisráðuneytinu sagður vera minni losun gróðurhúsalofttegunda án þess að öruggar vísindarannsóknir geti sannað það. Endurheimt votlendis er dýr en gagnslaus sýndarleikur til að þjóna tískustjórnmálum ESB.
___________________________________________________________
Losun „gróðurhúsalofttegunda“ frá mönnum hefur hverfandi áhrif á hitafar á jörðinni, lofthjúpurinn tekur nú þegar upp þá varmageislun sem lofttegundirnar (CO2, CH4) geta tekið upp. https://www.frjalstland.is/loftslagsvisindi-hrjad-af-folsunum/