EES spillir sýklarannsóknum

Meðan Ísland er í baráttu við Covid-19 faraldurinn ætlar ríkisstjórnin að veikja íslenska heilbrigðiskerfið og láta Alþingi samþykkja EES-reglugerð um að íslenskar rannsóknastofnanir noti sýklarannsóknatækni ESB. Það þýðir m.a. að sjúkrahús og stofnanir verða háð undirmálsvísindum ESB í veirurannsóknum og þurfa að nota dýra CE-merkta tækni frá vissum fyrirtækjum í stað þess að hafa óheftan aðgang að því besta á heimsvísu og láta íslenska vísindamenn hanna greiningarferlin.

Ísland ásamt með Færeyjum hefur verið í forustu á heimsvísu í sýnatöku og greiningum (150.000 á milljón) á Covid-19 veirusýkingum. Ástæðan er að íslenskt heilbrigðisvísindafólk hefur sjálft stjórnað sýnatöku og greiningum. Það er blaut tuska framan í íslenska vísindamenn að skipa þeim að nota CE-merkta ESB-tækni en eins og kunnugt er er CE-merking ekki trygging fyrir gæðum og áreiðanleika. Rannsóknirnar verða bæði dýrari, seinvirkari og verri með ESB-regluverkinu. Íslensk sjúkrahús og rannsóknastofur munu í framhaldinu missa sérfræðiþekkingu, þær þurfa að einskorða sig við staðlaða tækni frá fyrirtækjum sem hafa stimpil ESB.

Norskir læknar segja að EES-tilskipunin muni veikja heilbrigðiskerfið og valda því að þekking glatist og afkastageta versni. Sjúkrahúsin og rannsóknastofurnar verða háð fáum stórfyrirtækjum sem selja tæki og kerfi með geðþótta verðlagningu. Vísindamennirnir norsku, sem hafa sýnt tilþrif á þessu sviði, fá ekki lengur að hanna ferlin og velja það þróaðasta af alþjóðamarkaðnum.

https://www.aftenposten.no/meninger/kronikk/i/e8LgRg/ny-eu-forordning-truer-pandemitester

Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp til laga um lögfestingu á EES-tilskipunum 2017/745 um lækningatæki og 746 um sýklagreiningartækni. Eins og vanalega er tekið á móti athugasemdum við frumvarpið á Samráðsgáttinni. Það er óskammfeilin sýndarmennska af hálfu stjórnvalda, EES-tilskipanir hafa altaf farið í öllum meginatriðum beint inn í íslensk lög og reglugerðir. Athugasemdirnar hafa því engin stjórnkerfisleg áhrif.

https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2585

Heilbrigðiskerfi Íslands er ein verðmætasta eign landsmanna, það verður að verja það fyrir EES og afskiptum ESB eins og margoft hefur verið hamrað á af ábyrgu fólki. Þessum tilskipunum á að hafna. Reynslan af íslenskum vísindamönnum í Covid-19 faraldrinum er yfrið næg ástæða til þess.

This entry was posted in EES, Heilbrigismál. Bookmark the permalink.