Litlar þjóðir eins og Íslendingar eiga mikið undir að alþjóðastofnanir, sem eru opnar öllum þjóðum, vinni í allra þágu af heilindum og þekkingu. Nú er svo komið að margar alþjóðastofnanir eru orðnar spilltar, stunda yfirhylmingar og styðjast við ósönnuð vísindi. Íslendingar flestir þekkja Alþjóða hvalveiðiráðið og Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Nú hefur Alþjóða heilbrigðisstofnunin, WHO, bæst í hópinn.
WHO hefur á síðustu mánuðum reynst vanhæf til þeirra verkefna sem henni eru ætluð. Nú síðast hunsaði WHO viðvaranir um coronaveiruna lengi og hylmdi yfir með kínverskum stjórnvöldum meðan veiran tók að dreifast um heiminn. Stofnunin gaf út brenglaðar upplýsingar og rangar viðvaranir um veirufaraldurinn. WHO hefur áður verið mistækt í að hemja faraldra sem betur hefði mátt ráða við. Stofnunin geldur mögulega fyrir að vera undir Sameinuðu þjóðunum sem hafa þróast í átt að óviðráðanlegu bákni þar sem spilling og alræðisdraumar valdagráðugra skriffinna verða æ fyrirferðameiri. WHO er nú komin í hóp þeirra alþjóðastofnana þar sem vanhæfir stjórnendur ráða ferð.
WHO hefur verið falið vald af aðildarríkjunum sem er æðra valdi þjóðríkjanna. Það hefur nú verið að koma fyrir almenningssjónir að stofnunin rís ekki undir þessu valdi. Hún er háð spillingu, hefur meðal annars verið mikið undir áhrifum kínverskra stjórnvalda sem hafa mikil umsvif í Afríku þaðan sem forstjórinn núverandi er, hann var settur í embættið þó að hæfur sérfræðingur hafi gefið kost á sér.
Í kórónufaraldrinum nú hafa þjóðríkin þurft að fara sínar eigin leiðir með eða án WHO. Um mánaðarmótin janúar/febrúar virtist WHO ánægt með stöðu mála. Það voru svo Bandaríkin sem lokuðu á ferðir frá Kína og fleiri löndum í byrjun febrúar gegn meðmælum WHO. Aðrar þjóðir fylgdu í kjölfarið. WHO mistókst að hemja útbreiðslu faraldursins frá Kína. Íslensku heilbrigðisfólki og almannavörnum hefur aftur á móti þegar tekist að hemja faraldurinn á Íslandi.
WHO þarf að vera sjálfstæð og óháð Sameinuðu þjóðunum og einræðisþjóðum, stofnunin þarf faglega og óspillta stjórnun og hæfa stjórnendur og skipulega sítengingu og virka samvinnu við heilbrigðisyfirvöld þjóðríkjanna ef hún á að geta staðið vörð um heilsu jarðarbúa. Löng reynsla er til um faraldra og upphafsstaði þeirra og verður alþjóðleg heilbrigðisstofnun að vakta þá staði sérstaklega án áhrifa frá einræðisstjórnum.