Bretar endurheimta nú sjálfstæðið, 31. janúar, eftir nærri hálfa öld undir yfirvaldi á meginlandinu. Það var líklega ekki ætlunin hjá þeim sem flæktu Bretlandi 1973 í það sem þá var kallað „Evrópubandalagið“ eða „Sameiginlegi markaðurinn“ að afsala sjálfstæði landsins.
Alræðisvaldabákn opinberar sig
Það kom ekki vel í ljós fyrr en nokkru síðar að Evrópu-„bandalagið“ þróaðist í miðstýrt yfirþjóðlegt alræðisvaldabákn með stefnuna á innlimun allra Evrópulanda. Þegar ljóst varð hvert stefndi fóru að heyrast ábyrgar raddir í Bretlandi gegn ESB. Breski sjálfstæðisflokkurinn, UKIP, var stofnaður 1993, það var honum mikið að þakka að ríkisstjórn Íhaldsflokksins hélt þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildina 2016.
Útgangan var harður bardagi
Breskir embættismenn og margir helstu stjórnmálaleiðtogar voru orðnir samdauna ESB og börðust gegn útgöngu. En almenningur sá í gegnum áróðurinn og vildi endurheimta sjálfstæðið og ákvað útgöngu. Ráðamenn ESB og breskir áhangendur ESB reyndu að spilla því en breska lýðræðið stóðst þá raun. Stjórnvöld Bretlands virtu ákvörðun bresku þjóðarinnar þó að mikinn og langan bardaga hafi þurft og tvennar þingkosningar. Bretland stendur áfram sem ein helsta kjölfesta lýðræðis í Vestur-Evrópu.
Sögulegt hlutverk Bretlands
Bretar hafa, ásamt með Rússum, sögulega verið í hlutverki bjargvættar og forðað Evrópu frá landvinningum meginlandsþjóðanna. Þeirra framlag við að kveða niður stríðshlaup Frakka í byrjun 19 aldar og Þjóðverja á fyrri hluta 20. aldar bjargaði Evrópulöndum frá kúgun. Og nú taka Bretar enn og aftur að sér hlutverkið að standa á móti valdabrölti meginlandsþjóðanna.
Ísland fylgir í kjölfar Bretlands
Með útgöngu Breta, sögulega helstu viðskiptaþjóðar Íslands, úr ESB og EES gerbreytist aðstaða Íslands. Meðan Ísland er enn í EES hefur ESB völd yfir íslenskum málum, lög og reglur ESB/EES gilda hér áfram og útiloka frjáls samskipti við Bretland á ýmsum sviðum.
https://www.frjalstland.is/2018/01/20/ees-thvaelist-fyrir-samningum/
En íslensk stjórnvöld eru að reyna að semja um samskiptin án þess þó að geta breytt ESB/EES-kvöðunum og valdi ESB yfir Íslandi. Það endar óhjákvæmilega með því að Ísland verður að ganga úr EES til þess að frjáls samskipti geti komist á aftur. Útganga Breta úr ESB ryður brautina og er stórt skref í átt að endurheimt sjálfstæðis Íslands. Við hljótum að óska okkar öflugu nágrönnum til hamingju með stórsigur!
Friðrik Daníelsson, birtist fyrst í Morgunblaðinu 30.1.2020