Kostnaður af veru Íslands í EES er mikill, af neðansögðu má áætla hann um 250 milljarða sem Íslendingar greiða með samningnum á hverju ári.
Engin greining er til um kostnað af stjórnsýslulegri þátttöku eða á fyrirtæki og almenning af EES-samstarfinu.
Viðskiptaráð Íslands setti fram tölur 2015 um kostnað við eftirlit með atvinnulífinu. Beinn kostnaður var metinn um 20 milljarðar og óbeinn um 143 milljarðar. Síðan þá hefur næstum árlega komið fram fram gagnrýni á stighækkandi kostnað. 2019 segir Viðskiptaráð: „Enn fremur kemur Ísland verst út í norrænum samanburði á lykilþáttum regluverks og þá mælist Ísland með mest íþyngjandi regluverk í þjónustugreinum meðal OECD-ríkja.“ Aftur 2023 kvartar Viðskiptaráð undan regluverki ESB: „Áætlað er að þetta óþarflega íþyngjandi (þetta eina) regluverk hafi kostað íslenskt atvinnulíf 9,8 milljarða króna frá því að það var innleitt.“ VÍ ítrekar: „Jafnframt státar Ísland af þeim vafasama heiðri að búa yfir mest íþyngjandi regluverki innan OECD í þeim 19 geirum er snúa að þjónustu við þegna landsins, svo sem fjármálaþjónustu og lögfræðiþjónustu.“
Tæknilegar hindranir og tollar ESB gagnvart löndum utan sambandsins: EES-samningurinn kom í veg fyrir að Ísland nyti hagkvæmni fríverslunarsamninga EFTA og viðskipta við önnur lönd, t.d. lönd Ameríku og Asíu, vegna tæknihindrana ESB.
Reglur ESB á sviðum sem ekki voru í samningnum 1994 hafa krafist nýrra stofnana (til að komast hjá stjórnarskrárbroti) sem falla undir stjórn evrópskra yfirstofnana. Rekstrarkostnaður vegna þessa nemur tugum milljarða króna árlega.
Frelsi til orkuflutninga (þriðja orkupakkanum) var troðið inn í EES-samninginn eins og þekkt er. Innlend orkufyrirtæki nýta sér markaðsfrelsið þótt engin sé samkeppnin og hækka verð til smærri fyrirtækja og heimila, núna um síðustu áramót um 40% á smærri iðnfyrirtæki, í rauninni gegn ákvæði í OP3. Þessar hækkanir nema milljörðum á ári en á sama tíma eru 80% raforkuframleiðslunnar bundin í langtímasamningum til stærri aðila.
Ísland fylgir stefnu ESB í loftslagsmálum og hún er órjúfanlega bundin markaði fyrir losunarheimildir fyrir loftslagsaðgerðir ESB. Kerfið er einfalt: einkageirinn, þ.e. flug, sjóflutningar og stóriðja, þarf að kaupa sér losunarheimildir á hinum evrópska kolefnismarkaði, en löndin, hvert fyrir sig, eru ábyrg fyrir annarri CO2-losun í sínu umhverfi. Árið 2012 var tonn af CO2 selt á þrjár evrur. Síðustu misseri hefur verðið verið um 75 evrur fyrir tonnið og stefnir til himna þegar fluggeirinn og skipaflutningar koma að fullu inn í kerfið 2026. Er nokkur furða að ólíklegustu aðilar, þ. á m. Orkuveita Reykjavíkur, vilji komast í þennan bissness og dæla óhreina loftinu niður í jörð Hafnfirðinga og Þorlákshafnar eða dreifa vítissóda eða trjákurli í hafið til að búa til losunarheimildir! Gagnrýnendur segja viðskiptakerfið bjóða upp á spillingu í kerfinu (sem hefur sannast) og alvarlegar spurningar settar fram um framtíð þessarar miklu losunaráætlunar ESB.
Íslenskum flugrekendum er skylt að kaupa losunarheimildir frá 2026 í ETS-kerfinu (losun íslenskra flugrekenda var 537 þús. tonna CO2-ígildi árið 2022), skipafélögin þurfa að kaupa losunarheimildir frá 2024 og að fullu 2026. Kolefnislosun millilandasiglinga var 288 þús. t CO2-ígildi árið 2022. Kolefnislosun stóriðjunnar var 515 þús. t CO2-ígildi árið 2022.
Samtals þurfa því íslensk fyrirtæki í stóriðju, flugrekstri og skipaflutningum að kaupa 1,35 milljóna tonna kolefniskvóta að óbreyttu fyrir um 135 milljónir evra, eða 20 milljarða króna á ári. Hlutur flugs og sjóflutninga verður um 12,5 milljarðar króna, sem lendir á útflytjendum vöru og neytendum. Fyrir utan þetta leggur ríkið kolefnisgjöld á atvinnugreinar og almenning.
Losun á beinni ábyrgð Íslands vegna samgangna, smærri iðnaðar, fiskveiða, orkuframleiðslu, landbúnaðar, kælimiðla og úrgangs. Markmiðið er 41% losun kolefnis frá því sem var 2005 sem var 3.100 milljónir tonna. Áætlun Íslands er að hún verði 2.261 kt CO2-ígildi árið 2030, hún verður því hærri en 41% markmiðið (1.830 kt CO2) um 431 kt CO2. Samkvæmt því yrði Ísland að kaupa losunarheimildir fyrir um 6,5 milljarða.
Annar fylgifiskur þessarar ESB-meðvirkni er þátttakan í Schengen, þ.e. landamæraeftirliti ESB. Þátttaka í Schengen var algjörlega ástæðulaus, sem sést best af því að Bretland, Írland og Kýpur, allt eylönd í ESB, tóku ekki þátt í þessu samstarfi auk þess sem Búlgaría og Rúmenía eru ekki þátttakendur í Schengen. Með því misstum við alla stjórn á eigin landamærum og höfum ekki getað stöðvað flæði skilríkjalausra hælisleitenda til landsins, sem hefur kostað ríkið tugi milljarða á ári.
Kostnaður af veru Íslands í EES er mikill, af framansögðu má áætla hann um 250 milljarða sem Íslendingar verða að greiða með samningnum á hverju ári. Ábyrgum stjórnvöldum fyrir hagsmunum Íslands ber að segja honum upp. Þeim sem kalla á inngöngu í ESB ætti að vera ljóst að kostnaðurinn verður enn meiri fyrir þjóðina en þetta, auk þess sem fórna yrði öllum auðæfum þjóðarinnar og færa stjórn þeirra undir erlent vald.
Sigurbjörn Svavarsson.
Höfundur er formaður samtakanna Frjálst land. Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 24. mars 2025.